Um upphaf Urriðavatnssundsins
Sumurin 2011 og 2012 synti ég svokallað Vansbrosund í Svíþjóð. Það er 3 km langt, fyrst 2 km. niður hina lygnu Dalelven og svo 1 km upp þverá hennar, Vanån. Ég heillaðist af vatninu, hvetjandi áhorfendum, fólki í bátum sem gætti okkar sundfólksins og allri umgjörð sundsins. Í fyrra skiptið dagdreymdi mig um að stofna til svona sunds heima á Héraði. Í seinna skiptið vissi ég á mótum ánna tveggja að slíkt sund ætti að vera í Urriðavatni. Þegar heim kom setti ég mig í samband við Guðmund Davíðsson yfirmann Hitaveitu Egilsstaða og Fella (HEF) og þau Steinunni Ingimarsdóttur og Kjartan Benediktsson í björgunarsveitinni Hérað sem leist vel á hugmyndina. Ég ræddi við landeigendur á Urriðavatni sem tóku hugmyndinni vel og í ljós kom að Urriðavatnssund var í raun þegar til. Eiríkur Stefán Einarsson frá Urriðavatni hafði þá þegar synt vatnið endilangt og hugðist gera að venju. Það voru öðru fremur velvilji landeigenda og Eiríks Stefáns ásamt með tilstyrk HEF og björgunarsveitarinnar Héraðs sem gerðu fyrsta opinbera Urriðavatnssundið að veruleika 27.júlí 2013 og síðan verið árlega nema hvað það féll niður sumarið 2021 vegna Covid.
Pétur Heimisson
Mynd: Hilmar Gunnlaugsson og Pétur Heimisson