Ef aflýsa þarf Urriðavatnssundi
Skipuleggjendur Urriðavatnssunds hafa það að markmiði að halda sundið á hverju ári og alltaf sömu helgina, á laugardegi, síðustu helgi fyrir Verslunarmannahelgi. Allt skipulag og framkvæmd sundsins byggir á vinnu sjálfboðaliða og þar er aðkoma Björgunarsveitarinnar Héraðs stærst. Öll öryggismál tengd sundinu lúta skipulagi björgunarsveitarfólksins sem líka sinnir öryggismálunum að langmestu leyti.
Reynslan hefur kennt okkur að til þess getur komið að aflýsa þurfi sundinu en það gerðist árið 2020 vegna Covid. Þá var hægt að aflýsa því með löngum fyrirvara þannig að skráning hófst aldrei. Aðrar aðstæður gætu orðið til þess að aflýsa þyrfti sundinu með stuttum fyrirvara, jafnvel mjög stuttum. Útlit var fyrir það fyrir nokkrum árum en þá var það alvarlega í skoðun hjá okkur skipuleggjendum síðustu klukkustundirnar fyrir sundið að aflýsa því vegna mikils hvassviðris en það slapp til í það skiptið.
Enn eitt sem líkt og Covid og hvassviðri gæti ógnað öryggi sundmanna er sá möguleiki að björgunarsveitarfólk verði kallað í raunverulegar björgunaraðgerðir og geti því ekki annast gæslu og öryggismál við sundið. Við slíkar aðstæður gæti þurft að afslýsa því með stuttum fyrirvara.
Skipuleggjendur sundsins áskilja sér rétt til þess að aflýsa sundinu með lengri, styttri eða mjög stuttum fyrirvara við aðstæður eins og að ofan eru raktar og af öðrum ástæðum sem þeir meta þannig, Þá og þegar í hugsanlegri framtíð.
Ef sundinu er aflýst þegar 2 vikur eða meira eru til sunds þá verður skráningargjald endurgreitt að fullu. Komi til þess að aflýsa þurfi sundinu þegar minna en tvær vikur eru til sunds, verður skráningargjaldið endurgreitt, nema umsýslugjald sem í sundinu árið 2021 nemur kr. 3000.-
Skipuleggjendur Urriðavatnssundsins