Skip to main content

Urriðavatnssundsendurminningar

hrafndis

Urriðavatnið er örlítill pollur

engu það líkt er að Þingvallavatni

En í því er sundsprettur helvíti hollur

Og held ég að öllum þar sveimér þá batni.

Fyrir tveimur árum síðan þreytti ég mitt fyrsta Urriðavatnssund. Ég af hæversku minni og landsþekktu lítillæti skráði mig í 500 metra skemmtisund ásamt syni mínum. Þetta sagðist ég auðvitað einvörðungu vera að gera fyrir mitt eigið sjálf og syndaaflausnir en gáfaðir menn og gírugar konur hafa vitað lengra en nef þeirra náði og séð að þetta var lítið annað en hræódýr og afar mistæk kosningakrúttmennska. Það er nefnilega þíður og þjóðlegur siður að ríða um héruð og herskarast herfilega korter í kosningar og þykjast hafa á öllu og engu áhuga til þess eins að svæla út sóðaleg atkvæði fyrir eigið fé og frama. Ég skyldi nú síst verða eftirbátur í þeim æsispennandi leik.

Ekki var skrokkurinn vel stemmdur né stinnur. Það þrátt fyrir geypilegar hugrænar atferlismeðferðir mínar í átt að slíkum búsmabúk. Því brá ég á það ráð að best væri að æfa svolítið fyrir sundið. Maður er nú ekki alvitlaus þó útlitið gefi ástæðu til að ætla annað. Ég dreif mig því í Sundlaug Egilsstaða daginn fyrir keppni og kannaði hvort ég kæmist téða fimmhundruð metra án þess að æla eða andast. Skemmst er frá því að segja að ég lak í lokametrana án lóðsara undir vökulu auga sundlaugarSteina. Ef hann hefði verið betur stemmdur hefði hann veitt mér orðu á staðnum. (Óstaðkunnugir vita víst ekki hver Steini í sundlauginni er og það þýðir ekkert að útskýra það frekar fyrir þesslegum jaðarhópum samfélagsins).

Þá brast á með keppnisdeginum sjálfum. Hróðug mætti ég með mikilmennskuglott og gífuryrtar yfirlýsingar um eigið ágæti. Þetta gerði ég nátturlega einvörðungu til að fela hæversku mína og hóflegt sjálfsálit. Eftir að hafa tölt einn hring og talið mér trú um töluverðan atkvæðafjölda tiplaði ég inn í tjald og tróð mér íþróttagallann. Hvað svo sem öllu líður þá get ég uppljóstrað því strax hér í frásögninni að stærsti sigurvegari dagsins voru svo sannarlega saumarnir á sundbolnum.

Líkt og Linda Pé hér forðum daga gekk ég geislandi og glæsileg út úr típíinu af svo miklum þokka að sundafatamódel hinnar háleynilegu Viktoríu hefðu bliknað og blánað í samanburðinum.

En nú fór að bera á barmabrestum. Gamla pumpan prumpaði og skalf þegar óðar dró að sundinu sjálfu. Ég ásamt glæstum hópi hreystimenna, stórum og stæðilegum, á grunnskólaaldri, gerðum okkur klár til að hefja hundasundið. Það var varla fyrr búið að hleypa úr fallbyssu Þórunnar Hyrnu Hálfdánardóttur en frá mér hrutu harmakvein æðimikil þar eð ég hélt síst í við háfætta unglingana sem skunduðu skammlaust í vatnið og hófu fimlega baráttu sína við bolaöldurnar. Ég skakklappaðist heldur ókræsilega út í dauðahafið og hóf mig til hins síðasta sunds. Fljótlega fór að bera á ýmsum vanhuguðum undirbúningsatriðum. Steina í sundlauginni hafði algerlega fyrirborist að berja á mig öldum og illviðri. Þó ég sé ekki þekkt fyrir að færa nokkuð í stílinn né stóryrða, þá get ég upplýst ykkur um það að yfir vatnið gekk urr nokkurt ógurlegt og óskapnaðsveður af slíkum ofsa að aldrei hefur nokkur bur séð slíkt áður. Það var því með ólíkindum að ég skyldi hafa mig fyrir baujuna langþráðu sem markaði helming hremminga þeirra sem ég hafði sjálf komið mér í. Undrandi bæði yfir einstökum árangri mínum og því að ekkert hefði lækkað í vatninu þrátt fyrir að hafa innbyrt það sennilega til hálfs, mundi ég eftir að Örn í Húsey hafði víst eitt sinn kennt mér Arkímedesarregluna. Það var þá sem ég undraðist yfir því að ekki hefði verið gefin út flóðaviðvörun bæði að Skógargerði og upp í Fjallsel þegar ég steig út í. Nú eygði ég endamarkið, glæstar móttökur, næsta öruggt sæti á hinu háheilaga alþingi og með því drambfulla daga í borg munaðar og menningar. Þvílíkar framtíðarhorfur hafði enginn áður haft. Aldrei!

Það bar til um þessar mundir að senn skildi skrásetja stórkostlegan árangur minn á sviði íþróttaafreka. Ég hugsaði heitt til Árna Óla og allra ótrúlegustu upplognu afsakananna sem ég færði honum blygðunarlaust á færibandi alla mína örstuttu menntaskólatíð. Hann skildi sjálfsagt fyrstur hringja og árna mér heilla fyrir framann!

En líkt og Fönix fuglinn sjálfur synti ég of nálægt frægðarsólinni og vissi því ekki fyrr en að mér var dröslað upp á varnargarðinn, belgblárri og bumbulli. Þar höfðu staðið á garginu mínir helstu aðdáendur og hvatningarmenn, mætishjónin og frændfólk mitt á Urriðavatni. (Bænum altso. Þessi grein er bara heilt yfir ekki skrifuð með aðkomufólk í huga. Ég sé það núna. Ég biðst einnig afsökunar á að hafa kynnt inn karakterana Árna Óla og Örn í Húsey en allt á þetta fólk það sameiginlegt að hafa dregið það stutta strá í lífinu að þurfa að lexía mér á einn eða annan hátt). 

Af vesalings heimilisfólkinu á Urriðavatni er það að frétta að síðan þau þurftu að draga hvalrekann og kvíðasjúklinginn upp á þurrt land hafa þau varla borið barr sitt. Þeirra er samt sennilega getið í þrekvirkjabókum samhliða þorskastríðinu og björgun Keikós.

Sneypt og snauð silaðist ég eftir varnargarðinum og samdi í hausnum stóryrta ræðu um ótækar aðstæður og manndrápsleiðangur. En þar sem heilinn er sæmilega á pari við hollninguna var lesningin horfin úr huga mér áður en ég gekk síðasta spölinn og mér mætti glæstur hópur gleiðbrosandi gleðifólks sem lét eins og ég hefði heiminn sigrað. 

Það þarf sennilega ekki að taka það fram að ég komst ekki á þing.

Sé ykkur öll eldspræk á glæstu tíunda Urriðavatnssundi í sumar.

Hrafndís Bára Einarsdóttir.